Rudlarah Nossflógni

föstudagur, 25. júlí 2008

Feria Nueva Andalucía

Bara svona smá þorpshátíð hérna í úthverfinu, hálfgerð verslunarmannahelgarstemning núna um helgina, samt ekki Una Con Todos (Ein með öllu)... Byrjaði í gærkvöldi með mikilli göngu, lúðrasveit og bumbuslætti, og síðan einhvers konar athöfn á hátíðarsvæðinu (í risatjaldi) þar sem prúðbúnar unglingsstúlkur voru greinilega heiðraðar fyrir eitthvað... veit ekki hvað það var. Annars virðist þetta mest snúast um að selja fatnað, glingur og skran, fara í alls konar tívolíleiktæki þar sem er hávær tónlist (mismunandi tónlist í hverju tæki) og svo borða og drekka. Hingað til hef ég bara gert tvennt þetta síðastnefnda á þessari hátíð og reikna ekki með að taka virkan þátt í öðru en þeim athöfnum.

mánudagur, 21. júlí 2008

25 kílómetrar...

...í 25 stiga hita. Eða kannski voru það 20 kílómetrar í 30 stiga hita. Hef ekki nákvæmar tölur en fór í ansi langan göngutúr í gær. Lagði af stað fótgangandi heiman úr Nýju-Andalúsíu klukkan 15:14 að staðartíma, gekk niður í Puerto Banús, lék mér á ströndinni (gamall maður gekk þar hjá og heilsaði mér og ég sagði: Góðan dag, gamli maður), skoðaði báta og bíla, gekk austur með ströndinni til Marbella, hringsólaði þar um verslunar- og veitingastaðagötur fram á kvöld og gekk aftur heim til mín eftir að myrkur skall á (og villtist auðvitað). Á að giska 20-25 kílómetrar lagðir að baki í þessari ferð og held líka að það hafi horfið um 1-2 kíló af fitu...

...og hér eru nokkrar myndir til gagns og gamans...

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Nokkrar myndir úr nágrenninu

Hef verið latur að munda myndavélina frá því að ég kom til Spánar. Hef líka verið latur við að gera það sem venjulegir ferðamenn gera, enda er ég heimamaður en ekki ferðamaður (jafnvel þótt ég sé erlendur en þó ekki). Þegar tími hefur gefist frá vinnu hef ég aðallega farið í gönguferðir og stundum munað eftir myndavélinni.
Hér í pdf-skjali eru allar myndir sem ég tók á tímabilinu 26. júní til 17. júlí, bæði af íbúðinni þar
sem ég bý, næsta nágrenni og útsýninu...

sunnudagur, 6. júlí 2008

Hér bý ég...


...að minnsta kosti fyrst um sinn, í tveggja herbergja íbúð, sef í stofunni, Tinna og Ingvar í heimsókn og fengu að sjálfsögðu herbergið.


Mávur um miðja nótt

Já, þannig er það. Eina af fyrstu nóttunum mínum hérna á Spáni - ég hef sofið við galopinn glugga frá því ég kom hingað - vaknaði ég við kunnuglegt hljóð. Mér fannst allt í einu að ég væri bara kominn í Strympuna og heyrði þar spáð rigningu... þegar spænskir sjófuglar hófu upp raust sína, sennilega mávur eða svartbakur, og hljómaði alveg eins og heima. Ætli þeir tali íslensku hér á Spáni, fuglarnir? Eða spænsku á Íslandi? Eða bara fuglamál, hvar sem þeir eru?

Hvað sem því líður, stöku mávur eða svartbakur eða einhver úr þeirri ætt leggur á sig krók á hverjum degi, flýgur hingað uppeftir (um 3 km frá ströndinni), upp í Nýju-Andalúsíu (Nueva Andalucía) til að minna mig á hvað það er í raun stutt heim þó maður sé fluttur alveg suður að Miðjarðarhafi.

Heyrði ekki þegar sá fyrsti kynnti sig, held samt að það hafi ekki verið Jónatan Livingston.

Þetta var kannski mávur, ætli það heyrist svipað þegar Helgi mágur kemur til Malaga eftir áramótin?

Eins og kjáni á Spáni...

...sitjandi inni í 35 stiga hita og reyni að vinna. Það verður að segjast eins og er að ég er farinn að skilja af hverju fólk talar um að hlutirnir gangi hægar fyrir sig hérna en heima á Íslandi til dæmis. Maður bara vinnur hægar í þessum hita. Ég er lengur að skrifa eða þýða texta hér en heima... en fann þó aðferð í gærkvöldi til að vinna hraðar, fór út á svalir undir miðnættið og sat þar við skriftir, gekk mun hraðar.