Rudlarah Nossflógni

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Í bankaráni á Spáni!

Já, maður lendir í ýmsu. Lenti í miðju bankaráni. Þurfti samt enga áfallahjálp því þetta var ekki venjulegt, vopnað bankarán heldur var það ég sem var rændur... af bankagjaldkera! Held að aumingja gjaldkerinn hafi frekar þurft áfallahjálp þegar hún komst að því að hún hafði rænt mig.

Reyndar hef ég verið svo latur að skrifa að þessi saga er að verða gömul. Í kringum mánaðamótin júlí-ágúst þurfti ég að fara í banka til að borga leiguna. Dálítið skemmtilegt samt að ég þurfti að fara í hraðbankann í anddyri bankans til að taka út peninga, fara með þá inn í bankann og borga þar inn á reikning leigusalans því gjaldkerinn tók ekki kort! Sem aftur tafði það að ég gæti borgað leiguna á réttum tíma því viljandi eða óviljandi er eitthvert hámark á hraðbankaúttektum og ég þurfti að fara í hraðbankann nokkra daga í röð og taka út slatta. En svo kom að því að ég var búinn að fara nógu oft og kominn með nóg fyrir leigunni.

Konan í bankanum (sú sem var látin afgreiða mig af því að hún kunni ensku) sagði mér að þar sem reikningur leigusalans væri í öðrum banka þyrfti ég að greiða þrjár evrur í þjónustugjald fyrir að leggja inn. Allt í lagi með það.

Ég rétti henni pening fyrir leigunni ásamt tuttugu evrum til viðbótar til að greiða þetta þriggja evru þjónustugjald. Hún tekur við peningunum, setur í skúffuna og segir svo: "Og svo eru það þrjár evrur í þjónustugjald." Ég stamaði upp úr mér að ég héldi að ég hefði látið hana hafa 20 evrur umfram leiguna og ætti því að fá sautján til baka. Hún taldi að ég hefði ekki látið hana hafa nema akkúrat fyrir leigunni.

En sem betur fer eru kassarnir hjá bankagjaldkerum hér gerðir upp að loknum degi eins og heima á klakanum svo konan sagði kurteislega: "Láttu mig fá símanúmerið þitt og ef það verður afgangur þegar ég geri upp kassann í dag þá hringi ég í þig." Og viti menn, síðar um daginn hringdi konan, afsakaði sig og sagðist hafa fundið tuttugu evrur aukalega. Ég fór daginn eftir og sótti peninginn. Fékk að sjálfsögðu afsökunarbeiðni og vandræðalegt bros.

En eins og ég sagði... ég lenti í bankaráni á Spáni!

sunnudagur, 3. ágúst 2008

Vítahringur

Sko, þegar maður fer út í göngutúr í þessum hita verður maður að passa að drekka nægan vökva. Fyrst tekur maður litla vatnsflösku með sér en hún klárast fljótt. Síðan heldur maður áfram að ganga og þarf fljótlega að fara á salernið af því að maður drakk vatnið of fljótt. Þá liggur beint við að fara á næsta bar eða veitingastað en kurteisin kennir manni að fara ekki á salernið á svoleiðis stöðum án þess að eiga við þá önnur viðskipti einnig. Það er því sjálfsagt mál að panta bjór, fara á salernið og setjast svo niður og drekka bjórinn. Þegar bjórinn er búinn stendur maður aftur upp og heldur áfram að ganga... en fljótlega þarf maður aftur að fara á salernið til að skila bjórnum sem maður drakk á næsta stað á undan. Já, ganga er erfið íþrótt.

laugardagur, 2. ágúst 2008

Ég nota kortin lítið hér á Spáni nema bara til að...

...ná mér í hressandi evrur í næsta hraðbanka:

http://mbl.is/mm/folk/frettir/2008/08/02/kokain_a_evrum/

Ef þú ert langt niðri í neðra, gæti svarið verið evra.